Bátasmiðja Guðmundar(Heitir í dag Sómabátar) var stofnuð árið 1979 af Guðmundi Lárussyni skipasmið.
Guðmundur sem smíðaði sinn fyrsta bát árið 1959 hóf smíði á plastbátum árið 1977 og má þar segja að sú ákvörðun Guðmundar hafi lagt grunninn að Sómabátunum sem allir sjómenn þekkja í dag.
Árið 1979 var grundvöllurinn fyrir stofnun fyrirtækis utan um Sómabátana orðinn að veruleika, og stofnaði Guðmundur þá Bátasmiðju Guðmundar.
Upphaflega var byrjað í litlu húsnæði á Helluhrauni í Hafnarfirði og þar náðum við að smíða mest 30 báta á ári og 1986 var farið í 1000 m2 hús á Eyrartröðinni. Mest var framleitt 87 til 89, 50 báta á ári. Eftir að hafa þróað og byggt Sóma í rúmlega 20 ár og smíðað tæplega 400 báta tók Óskar Guðmundsson sonur Guðmundar við Bátasmiðju Guðmundar árið 1999, og verður það að teljast til happs fyrir aðdáendur Sóma bátana því Óskar hefur starfað við Bátasmiðjuna óslitið síðan árið 1983 en áður hafði hann verið í smiðjunni með skóla og þekkti framleiðsluferlið á bátunum frá A til Ö.
Þess má geta að ástæða velgengi Sóma hlýtur að teljast sú að allt frá byrjun hafa Guðmundur og Óskar ásamt starfsmönnum Bátasmiðjunnar lagt sig fram við að prófa framleiðslu sína sjálfir. Það er viðtekin venja í Bátasmiðjunni að hlutirnir geta litið vel út á teikniborðinu en ekkert jafnast á við áratuga reynslu þar sem menn þekkja aðstæðurnar af eigin raun.
Hjá Sómabátum starfa starfsmenn með mikla reynslu bæði af sjómennsku sem og smíði báta, rafmagns, stálsmíði, álsmíði og að sjálfsögðu er þarna komin saman ein mesta reynsla á Íslandi á sviði smíði úr trefjaplasti, en allir Sóma bátar eru smíðaðir úr trefjaplasti og af árekstrarprófunum sem framkvæmdar voru af óháðum aðilum á Sóma bátnum Ásþóri RE-395 þá verður að segjast að styrkur Sóma er einstakur, en þarna er vitnað í þegar óprúttnir náungar stálu Ásþóri RE-395 úr Reykjavíkurhöfn og sigldu bátnum á miklum hraða (32 sjómílur) á hafnargarðinn í Reykjavíkurhöfn. Stefnið á Ásþóri brotnaði en báturinn sökk ekki og var hífður úr sjónum og lagaður hjá Bátasmiðju Guðmundar. Skipt var um stefni og sést ekki að báturinn hafi lent í árekstri við hafnargarð.